Bikarmót

Sunnudaginn 13. nóvember munu Bandýnefnd ÍSÍ og HK efna til bikarmóts í bandý í Kórnum í Kópavogi.

Mótið stendur yfir heilan dag frá klukkan 12-18 en fjöldi og lengd leikja mun fara eftir fjölda liða sem taka þátt en líklega verða leikirnir 2x10 mín. eða 2x15 mín. Þátttökugjald er 15.000 kr. á lið sem þarf að greiðast inn á reikning 525-14-604806, kt. 620306-0530 áður en skráningu á mótið lýkur.

Hámarksfjöldi leikmanna per lið er 16 og mega liðin vera blönduð strákum og stelpum.

Markmenn geta fengið lánaðan tilskyldan hlífðarbúnað í leikjum og leikmönnum verður hægt að útvega lánskylfur ef þess þarf.

Nánari upplýsingar um mótið verður hægt að nálgast hér, á vefsíðunni bk.bloggar.is eða á Fésbókinni þegar nær dregur móti.

Skráning liða er móttekin á netfanginu bandynefnd@gmail.com. Koma þarf fram nafn á liði og grófur leikmannalisti. Endanlegur leikmannalisti þarf þó ekki að liggja fyrir fyrr en kl. 17 daginn fyrir mótið og þurfa þá markmaður og fyrirliði að vera tilgreindir sérstaklega.

Opið er fyrir skráningu til 8.nóvember.


Æfingatímar hjá HK í vetur

Æfingar eru hafnar á ný og verða á eftirtöldum tímum:

Barnaflokkur:
Miðvikudagar: Íþróttahús Kársnesskóla, kl. 18-19.
Föstudagar: Íþróttahús Lindaskóla, kl. 16:40-18:00.

Kvennaflokkur:
Mánudagar: Íþróttahús Kársnesskóla, kl. 19-20.
Laugardagar: Kórinn, kl. 13:30-15:30.

Karlaflokkur:
Mánudagar: Kórinn, kl 20-22. Athugið, ekki í desember. Mánudagsæfingar hefjast aftur 9. janúar.
Föstudagar: Kórinn, kl. 18-20.

Svo er opinn tími fyrir alla flokka í Kórnum á laugardögum, frá 15:30-16:30.

Allir áhugasamir velkomnir, endilega látið sjá ykkur! Allur bandýbúnaður til staðar fyrir þá sem vantar.


HK fallið úr leik á Czech Open

Nú er þátttöku HK á mótinu Czech Open lokið, öðrum liðum til mikillar armæðu. Við náðum ekki alltaf hagstæðum úrslitum en við unnum hugi og hjörtu áhorfenda og annarra með því að spila alltaf með hjartanu og öðrum líffærum. Hér fylgja pistlar um leikina sem við spiluðum, þar sem sá sem þetta skrifar skoraði einu mörk liðsins á mótinu verður gert frekar lítið úr þeim til að sýna uppgerðarhógværð.

HK - One Season Wonder 1:5
Fyrsti leikurinn var gegn finnska liðinu One Season Wonder sem er hópur af hressum Finnum.
Þar sem þetta var fyrsti leikur okkar á mótinu þá var smá stress í mönnum en það leið fljótt hjá og náðum við að halda hreinu í þonokkurn tíma. Þeir náðu þó að pota inn a.m.k. einu marki undir lok fyrri hálfleiks þvert gegn gangi leiksins. Í seinni hálfleik náðu þeir að komast í 3-0 en þá gerðist lítið kraftaverk. Leikmaður nr. 97 fékk góða sendingu frá leikmanni nr. 23 og náði að leika framhjá einum andstæðingi og skaut á markið. Þá allt í einu opnuðust himnarnir, það heyrðist englasöngur og tíminn stóð í stað. Á meðan boltinn var á leið í átt að markinu leið tíminn ofurhægt og hefur það verið staðfest af vísindamönnum í Greenwich þar sem heimsins nákvæmasta klukka er staðsett. Áhorfendur tóku andköf þegar það kom í ljós að HK hafði skorað og þögn sló á Finnana, hvernig gat þetta gerst?!

Þeir náðu þó að jafna sig á áfallinu og sigruðu að lokum 5-1 þrátt fyrir hetjulega baráttu HK. Ef við getum kennt einhverjum um tapið þá eru það kannski dómararnir eða hitt liðið sem á sökina því okkur finnst óþægilegt að kenna okkur sjálfum um.

HK - FB Hurrican Karlovy Vary 0:7
Nú var komið að næsta leik, við tékkneskt lið sem við vissum engin deili á. Það aftraði okkur þó ekki frá því að mæta í leikinn af fullum krafti enda stýrðum við leiknum algjörlega fyrstu mínútuna eða svo, nema að Tékkarnir voru samt meira með boltann. Það gerðist reyndar fátt markvert í leiknum fyrir utan það að leikmaður nr. 23 fékk væna byltu og gat ekki leikið meira með HK á mótinu þar sem hann fékk slæmt högg á öxlina og þurfti að fara á spítala. Hann er þó á góðum batavegi. Einnig átti HK skot í slá en inn vildi boltinn ekki.

Það eina sem klikkaði í þessum leik var að við skoruðum færri mörk en andstæðingurinn en það ætti að vera auðvelt að laga það smáatriði.

HK - FBC Kladno Bílí  0:12
Þriðji leikurinn var við tékkneskt lið frá Kladno. Þetta var sterkasta liðið í riðlinum og því mikilvægt að við værum vel stemmdir fyrir leikinn. Við vorum mjög hressir og vel stemmdir, búnir að borða vel á KFC og því alveg tilbúnir í slaginn. Hins vegar var markmaðurinn með kvef og smá hálsbólgu og varð það okkur að falli í þetta sinn. Það gerðist ekki margt markvert í þessum leik og hann fer seint í sögubækurnar fyrir að vera eftirminnilegur.

HK - SZPK-Nokia Komarom 1:3
Síðasti leikurinn var gegn ungversku liði með furðulegt nafn og hefði sigur í þessum leik getað tryggt okkur sæti í 64 liða úrslitum. Ungverjarnir komust í 2-0 áður en leikmaður nr. 97 sem hafði verið úti að aka allan leikinn fékk góða sendingu frá leikmanni nr. 11 og náði að minnka muninn í 2-1. Hver er þessi leikmaður nr. 97? Hvaðan kom hann? HVERT ER HANN AÐ FARA!?

HK fékk nokkur færi til að jafna leikinn og tryggja sér framlengingu en Ungverjarnir náðu að skora þriðja markið þegar aðeins hálf mínúta eftir og þá var vonin úti. Þetta var í raun eini leikurinn þar sem við gengum svekktir af velli enda áttum við alveg möguleika á að sigra þetta lið þó það hafi reyndar verið nokkuð sterkt.

Þar með var mótinu lokið af hálfu HK. Þess má til gamans geta að öll liðin sem HK keppti við komust í 32-liða úrslit eða ofar af 128 liðum þ.a. við vorum ekki að keppa við neina aukvisa. Eftir keppnina fékk HK kauptilboð frá 3. deildar-liðinu Sazprém Saluz Florbaly frá Azerbaídsjan í leikmann nr. 97. Þeir eru tilbúnir að borga HK tvær krukkur af súrsuðum pylsum og eina dverggeit með kíghósta. Það er enn verið að fara yfir tilboðið.
Þess má svo geta að tekið var skemmtilegt viðtal við okkur á mótinu.

Það styttist í næsta leik

Nú er liðið aftur á leið á stórmót í bandý, í þetta sinn á Czech Open (ísl. óútfylltur tékki) mótið í Prag í Tékklandi. Núna fer liðið undir merkjum HK, en BK og HK sameinuðust undir merkjum HK í fyrravor. Það má segja að liðið hafi breyst þó nokkuð frá síðustu ferð, enda eru aðeins fimm leikmenn í liðinu nú sem muna tímana tvenna og tóku þátt í mótinu í Danmörku.

Við munum spila a.m.k. þrjá leiki á mótinu, en við erum í riðli með tveimur tékkneskum liðum og einu finnsku. Við vitum ekki mikið um þessi lið en a.m.k. má halda því fram að þessar þjóðir séu ekki mjög framarlega í bandýheiminum og ættu því að vera auðveld bráð fyrir okkur.

Dagskrá mótsins má finna á slóðinni http://www.czechopen.cz/en/tymyrozpisy/play-off#MB með því að leita að HK. Við vonum að íslensk þjóð styðji dyggilega við bakið á okkur og sendi okkur hlýja strauma, og ekki væri verra að fá eitt stykki Fálkaorðu þegar við komum aftur heim.


Þátttöku BK á mótinu lokið

Síðasta leik liðsins lyktaði með sigri danska liðsins Hafnia, 33-2. Þrátt fyrir að BK hafi stjórnað leiknum nánast allan tímann þá má segja að hinn margfrægi slæmi kafli hafi orðið liðinu að falli í þetta sinn. Slæmi kaflinn hófst þegar um ein og hálf mínúta var liðin af leiknum og entist nokkurn veginn allan leikinn. Má því segja að með því að útrýma hinum margumtalaða slæma kafla úr leik liðsins væri hægt að sigra lið á borð við Hafnia. Það má einnig benda á að Hafnia fékk aðeins fimm mörk samtals á sig í riðlinum og þar af skoraði BK 2 sem er vægast sagt góður árangur. Að auki er vert að minnast á það að tveir nýir markaskorarar komust á blað, þeir Gunnar og Bryngeir. Þá var einnig augljóst að salurinn var á bandi BK, en í stúkunni var hópur af Spánverjum sem hvöttu strákana okkar til dáða. Eftir þennan ósigur má kannski segja að Íslendingar geti loksins gleymt fótboltaleiknum sem endaði 14-2 fyrir Dönum.

Núna gefst leikmönnum smá tími til að hvíla sig og jafna sig á marblettunum eftir allar kúlurnar sem leikmenn fengu í sig á mótinu áður en haldið verður til Íslands annað kvöld þar sem fjölmiðlar munu að öllum líkindum taka á móti liðinu í Leifsstöð. Við viljum þakka öllum Íslendingum fyrir ómetanlegan stuðning á meðan á mótinu stóð, og við vonum að við tökum aftur þátt að ári í þessu skemmtilega móti.


Franskur sigur í jöfnum leik

Segja má franska liðið Paris UC hafi rétt marið sigur á okkur í dag; lokastaðan var 17-1 þeim í vil. Svona eru bara íþróttirnar, það þarf að skora fleiri mörk en hinir til að vinna, og það er það sem Paris UC gerði. Markvörður okkar hafði á orði að ef hann hefði varið 17 skot í viðbót þá hefðum við unnið leikinn, en hann varði alls 25 skot í leiknum. Við getum þó borið höfuðið hátt, enda skoruðum við einkar glæsilegt mark sem má segja að hafi verið hápunktur leiksins. Á morgun munum við svo spila við danska liðið Hafnia sem ætti að vera nokkuð erfiður leikur fyrir okkur, enda unnu þeir franska liðið með ellefu mörkum gegn einu. Við þurfum því stuðning allrar þjóðarinnar á morgun, styðjið nú strákana okkar vel svo þeir geti a.m.k. gert sitt besta á móti Dönum!

Þess má geta að við hittum aftur danska þjálfarann núna í kvöld, og hann spurði okkur hvort við vildum fá auka æfingu um helgina. Þá var hann spurður á móti hvort hann væri tilbúinn til að þjálfa okkur. Svarið var stutt og laggott: „Til þess þyrfti ég að vera miklu betri þjálfari.“


Úrslit úr fyrsta leik

Núna er fyrsta leik okkar lokið á mótinu og urðu lokatölur 1-11 hinu liðinu í vil. Þrátt fyrir óhagstæð úrslit vorum við alveg inni í leiknum fram á síðustu mínútu og vorum við síst lakari aðilinn, nema að við vorum ekki eins góðir og hinir. Einnig má nefna að öll mörkin sem við fengum á okkur komu á afar óheppilegum sálrænum augnablikum og átti það sinn þátt í því hvernig fór. Við komumst nokkuð oft yfir miðju og endaði það einu sinni með því að kúlan lá í netinu hjá HDM með glæsilegu skoti frá Pavol Cekan. Þá var staðan orðin 4-1 og má segja að leikurinn hafi verið í járnum alveg þangað til HDM skoraði tíunda markið. Við lögðum upp með það herbragð að verjast aftarlega og sjá svo til ef við kæmumst yfir miðju og má með sanni segja að þetta hafi gengið fullkomlega upp, fyrir utan það hvað við fengum mörg mörk á okkur.

Andstæðingarnir voru frekar harðir í horn að taka, t.d. er sá sem þetta ritar með kúlu á hausnum og skaddaða öxl eftir að tveir leikmenn hins liðsins krömdu hann á milli sín og nokkrir leikmenn fengu að fljúga út af vellinum. Úrslitin í dag voru kannski óhagstæð, en það þýðir þó ekki að gráta Björn bónda, heldur skal safna liði fyrir leikinn við franska liðið Paris UC á morgun. Við vitum frekar lítið um það lið fyrir utan það að aðeins tveir í liðinu eru franskir en það skiptir ekki máli því enginn af okkur talar frönsku.

-Hafsteinn


Bein lysing a leikjum

Hægt verdur ad sja beina lysingu a leikjunum a floorball.org. Vid fengum ekki ad vita nakvaemlega hvar a sidunni thar er ad finna en vid vonum ad thad se audvelt ad sja thad.

Annars ma nefna thad ad vid fengum ad aefa smavegis i hollinni i morgun og thar var einn danskur thjalfari ad fylgjast med okkur og spjalladi adeins vid okkur en thad var eitt mjog eftirminnilegt sem hann sagdi thegar hann benti okkur a ad thad vaeri haegt ad fa fleiri aefingatima i husinu: "You need it."


Fréttir af mótsundirbúningi

Núna er orðið ansi stutt í fyrsta leik hjá okkur, spennan er að magnast. Fyrsti leikurinn er á miðvikudaginn kemur, þá spilum við við hollenska liðið HDM. Við erum búnir að æfa fullt af góðum leikkerfum, t.d. stormsókn™, pýramídasókn™ og allir-leikmenn-í-markinu-vörn™. Við vonum að þessi leikkerfi komi andstæðingunum á óvart og riðli leik þeirra. Við munum svo reyna að nýta okkur ringulreiðina til að skora nokkur mörk. Auk þess er einn meðlimur BK kvart-Hollendingur og hann gæti þekkt nokkra veikleika hjá HDM.

Á fimmtudaginn keppum við svo við franska liðið Paris UC. Við vitum mjög lítið um það lið nema að þeir eru sólgnir í froskalappir og snigla og klæðast alpahúfum við öll tilefni. Við erum ekki vissir um að við getum nýtt okkur þetta mikið í leiknum en það er aldrei að vita.

Á föstudaginn er svo leikur við danska liðið Hafnia. Fólk hefur stoppað okkur úti á götu og beðið okkur um að sýna Dönunum í tvo heimana  og hefna loksins fyrir allt sem þeir hafa gert okkur, og þá sérstaklega einokunarverslunina; þ.e. þegar þeir seldu okkur mölétið korn. Við munum svo sannarlega gera okkar besta en ef það gengur ekki upp þá höfum við hugsað okkur að launa þeim lambið gráa með því að taka með okkur mölétið korn og reyna að selja það á einhverri verslunargötunni. Ef það gengur eftir þá teljum við fullhefnt fyrir þennan fantaskap.

Að lokum viljum við biðja alla Íslendinga um að senda okkur góðar hugsanir og styðja nú vel við bakið á strákunum okkar! (þ.e. BK)


Allir velkomnir

Eins og kemur fram í greininni þá eru allir velkomnir á æfingar hjá okkur. Þær munu hefjast á ný í íþróttahúsinu Smáranum í september. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar þegar nær dregur á bk.bloggar.is og að sjálfsögðu á þessari síðu.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband